II.b — Samanburður á gæðum yfirfærslu

Í síðasta kafla kom fram að gæði yfirfærslu á saman lagi geta verið afar misjöfn. Það eru margir þættir sem valda þessu: hversu vel farin lakkplatan er, tæknin sem notuð er til að taka upp tónlistina og færa hana yfir á stafrænt form, og eftirvinnsluna, þar sem tónjöfnun er oftast notuð til að lagfæra tíðnikúrvu plötunnar og til að hreinsa hljóminn. Við getum reiknað með því að við yfirfærsluna hafi tæknimenn unnið með öll þessi atriði, en á ólíkan hátt og út frá ólíkri þekkingu. Þessvegna er mikilvægt að rannsaka þetta nánar til að fá skýrari mynd af því hvernig við getum unnið með tónlistina til að hún haldi fjölbreytni sinni, sé í jafnvægi en jafnframt tær. Hér má sjá tíðnigröf gerð eftir 4 lögum, til að sjá hvernig ólíkar útgáfur hafa umbreyst við yfirfærsluna og síðari endurvinnslu. Queja indiana með Orquesta Francisco Canaro, frá 1927, (2) Cantando með Orquesta Adolfo Carabelli, frá 1931, (3) Grand Hotel Victoria með Orquesta Juan D’Arienzo, frá 1935, og (4) Recuerdo með Orquesta Osvaldo Pugliese, frá. Í öllum vilvikum verður útgáfa TangoTunes notuð til samanburðar. Ástæða þessa er að þeir lýsa einna best þeim aðferðum sem þeir nýta við yfirfærsluna, sem byggir á nýjustu tækni. Þeir lagfæra galla í tíðnistyrk á skipulegan máta út frá nákvæmum mælingum og upplýsingum um tíðnidreifingu lakkplatna en tónjafna skrárnar ekkert umfram það, nema til að eyða út smellum. Þessar skrár eru því hvað eðlilegastar og henta því vel til samanburðar.

1. Queja indiana  með Orquesta Francisco Canaro, frá 1927

Þetta er með fyrstu rafrænu upptökunum, með hljómsveit Francisco Canaro frá 1927. Ég kem til með að bera útgáfu TangoTunes við þrjár aðrar til að sýna fram á mun á tækni við yfirfærslu og eftirvinnslu.

Þetta er tíðnirit, út frá meðaltalsdreifingu (Infinite averaging), af fyrstu mínútu Queja indiana. Hér sést að mesti styrkurinn er á milli 180 og 700 riða. Bassinn lækkar síðan smátt og smátt niður í 40 rið. Miðsviðið er í nokkuð góðu jafnvægi frá 700 upp í 3000 rið á meðan blæbrigði detta út eftir 4500 rið. Lág-miðtíðnisviðið (200–500 rið) er sterkast, á meðan bassinn (80–200 rið) og há-miðtíðnisviðið eru um 20 dB veikari. (Athugið að tangótónlist frá þessum tíma nær ekki upp í diskantsviðið, sem liggur frá 7 upp í 20 kílórið).

Þetta er samanburður við útgáfu af Tangos – Francisco Canaro – EPM 995322. Hér er greinilegt að lágtíðnin hefur verið stölluð frá 50 riðum, sem og allt yfir 4500 riðum. Þetta er það svið sem liggur utan við næmni hljóðdósa frá því fyrir 1930. Við sjáum líka að bassinn á milli 50 og 190 riða hefur verið styrktur um allt að 3 dB. Mið- og há-miðsviðið, frá um 1000 til 4000 rið hafa einnig verið styrkt um allt að 7 dB. Ef þessi útgáfa ætti að hljóma líkt og TangoTunes-útgáfan þyrfti að draga niður bæði bassann og há-miðsviðið umtalsvert.

Þetta er útgáfa af vínílplötu með titilinn Memorias del Trio Argentino – Memorias LP585, , gott dæmi um dæmigerða ódýra útgáfu. Hér er búið að skerða talsvert af bassanum, frá um 90 riðum. Það sama á við um hátíðnina sem hefur verið skorin við 3 kílórið, trúlega til að eyða suði. Það er einnig greinilegt að hærri tíðnisvið hafa ekki verið styrkt í eftirvinnslu. Þau eru því allt að 18 dB lægri en hjá TangoTunes. Möguleg skýring á þessum mikla mun er að nálin sem notuð var við yfirfærsluna hafi verið of lítil fyrir lakkplötu; þessvegna náði hún ekki að fylgja hátíðninni nægjanlega. Þar sem búið er að skera burt mikilvægar upplýsingar væri engin leið að bjarga þessari útgáfu með tónjöfnun.

Þetta er útgáfa af Noche De Reyes – 4º Concurso De Tangos De Max Glücksmann Y Sus Discos Nacional 1927 – El Bandoneón (EBCD-152). Þetta er mikið betri útgafa en sú síðasta. Þrátt fyrir það er áhugavert að bera þetta saman við TangoTunes útgáfuna, þannig má sjá hversu ólíkar ákvarðanir við eftirvinnslu hafa verið. Hér er ekki búið að stalla bassann. Bassinn er þó veikari, um 4–5 dB lægri en hjá TangoTunes. Há-miðtíðnin er stölluð frá um 2 kílóriðum. Þannig glatast mikilvæg smáatriði sem liggja á milli 2 og 4 kílóriða. Til að vega upp á móti þessu hefur sviðið frá 700 til 2000 riða verið styrkt um 5 dB. Ef þessi skrá ætti að hljóma í líkingu við TangoTunes útgáfuna þyrfti að styrkja bassann um í kring um 5 dB, lækka miðsviðið um 5 dB,en styrkja um 5 dB frá 2300 til 3300 riða.

2. Cantando með Orquesta Adolfo Carabelli með Alberto Gómez og Mercedes Simone frá 1931

Þetta er lag frá 1931 sem margar ólíkar útgáfur hafa gefið út. Fyrst er tíðniritið borið saman við dæmið hér á undan, sem mælikvarði á framfarir í upptökutækni frá 1927. Síðan verða helstu útgáfur þessa lags bornar saman við TangoTunes útgáfuna.

Hér er samanburður á milli lags Canaros frá 1927 Queja indiana (blátt) við TangoTunes útgáfu lags Adolfos Carabellis Cantando frá 1931 (grænt). Það er augljóst að nýtanlegt tónsvið þessara tveggja upptakna er svipað, með nýtilegt hljóð frá um 70 riðum upp í 4 kílórið. Það er hinsvegar áberandi að upptakan frá 1931 er í betra jafnvægi vegna þess að bassinn og hámiðjan dofnar ekki eins mikið og í upptökunni frá 1927.

Hér eru bornar saman TangoTunes útgáfan af Cantando og útgáfan á Adolfo Carabelli Vol. 2 – 1931-1932 – (TDJ-1019) frá Tango records / Tango-dj.at. Hér sést að á TDJ útgáfunni er bassinn ekki hækkaður eins mikið og á þeirri frá TangoTunes; hann er um 6 dB lægri við 100 rið. Hærri tíðnibilin, frá 2–4 kílórið eru hinsvegar styrktar meir, um nálægt 4 dB. Á TangoTunes útgáfunni er bassinn og yfirtíðnin ekki stallað niður, á meðan TDJ stallar niður fyrir neðan 70 rið og fyrir ofan 4 kílórið.

Þetta er samanburður við útgáfuna á Adolfo Carabelli 1931-1934 – BATC (ORQ 247) gefni út af Buenos Aires Tango Club (sú sama og er á Memorial Del Tango 6 – Adolfo Carabelli – AMP (CD-1162M) frá Yoshihiro Oiwa). Svo virðist sem bassinn hafi ekki verið leiðréttur eftir yfirfærsluna, en hann er um 10 dB of lár 100 rið. Hámiðjan er strax farin að síga eftir 2 kílórið, stölluð niður þaðan sem leiðir til þess að blæbrigði glatast.

Hér er samanburður við útgáfuna af Adolfo Carabelli Vol. 1 (1931-1933) – (CTA-261), útgáfu Akihito Baba fyrir Club Tango Argentino. Þessi útgáfa er nærri TangoTunes útgáfunni í tíðnidreifingu. Bassinn hefur verið hækkaður aðeins minna, um sem nemur 4 dB, á meðan hámiðjan er sterkari, um 3 dB. Bhabha stallar hátíðnina niður frá um 3.5 kílóriðum.

Þessi útgáfa er á Adolfo Carabelli – Vol 1 – 1931-1932 – Sello RCA Victor – Club De Tango. Hún virðist vera í meira ójafnvægi samanborið við hinar. Þetta gæti verið vegna þess að tæknin við yfirfærsluna hafi verið ófullkomin, þannig að nálin hefur ekki náð að fylgja rákunum nægjanlega vel. Hljómsviðið yfir 300 riðum er nokkuð flatt, á meðan bassinn er, eins og í flestum hinna, lægri en í TangoTunes útgáfunni. Hámiðjan er einnig stölluð helst til snemma, frá um 2,5 kílóriðum, með tilheyrandi tapi á blæbrigðum.

Lokaútgáfan er á Adolfo Carabelli y su Orquesta Típica 1931-1933 – Cuatro Palabras – El Bandoneón (EBCD-87). Við sjáum að hún er nánast eins og TangoTunes útgáfan fyrir ofan 200 rið. Bassinn er hinsvegar mikið lægri, um 9 dB lægri við 100 rið. Hámiðjan er einnig stölluð helst til snemma, við 3 kílórið, sem bitnar á blæbrigðum.

Það er augljóst að flestar útgáfur á lagi Carabellis Cantando virðast vera líkar að gæðum. Munurinn á útgáfum er lítill á efri tíðnibilum, en meira áberandi í bassanum. Hér virðast flestar útgáfur fylgja annarri leiðréttingarkúrvu en TangoTunes, þannig að bassinn er ekki leiðréttur nándan nærri eins mikið. Ef þetta á við um flest lög frá þessum tíma þyrfti í flutningi að hækka bassann í flestum útgáfum um í kring um 6–9 dB.

3. Hotel Victoria með Orquesta Juan D’Arienzo frá 1935

Þetta er eitt af fyrri lögum hljómsveitar D'Arienzos, frá 1935 eða upphafi Gullaldarinnar. Hér er TangoTunes útgáfan notuð til viðmiðunar, borin saman við aðrar 5 útgáfur þar sem ólíkar aðferðir við yfirfæslu hjá ólíkum útgáfum birtast vel.

Hér er borin saman TangoTunes útgáfan of Cantando með Carabelli frá 1931 (blue) og Hotel Victoria með D’Arienzo frá 1935. Það fyrsta sem er áberandi er hversu líkar báðar kúrvurnar eru í smáatriðum. Þetta bendir til þess að ekki hafi átt sér stað teljandi breytingar á upptökutækni á milli 1931 it 1935. Jafnvægið er sviðan og blæbrigðin benda til þess að nýtanlegt svið liggi á milli 70 riða og 4 kílóriða, sem fyrr.

Hér eru bornar saman TangoTunes útgáfan (blá) og útgáfa af Juan D’Arienzo Vol. 01 (1935-1936) – (CTA-301) (græn) frá Akihito Baba. Þær eru einstaklega líkar, sér í lagi miðsviðið. Hámiðjan hjá TangoTunes er eilítið sterkari, svo munar um 3 dB frá 600 riðum upp í 3000 rið. Til samanburðar hefur CTA útgáfan eilítið sterkari bassa (1.5–2 dB), frá 200 riðum og niður. Í CTA útgáfunni er hátíðnin lækkuð talsvert frá 3 kílóriðum, sem gæti leitt til þess að miklvæg blæbrigði rýrist á milli 3–4 kílóriða.

Hér sjáum við Hotel Victoria af Juan D’Arienzo Época de oro Vol. 01 (1935-9138) – (APCD-6501) frá Audio Park í Japan. Hér verða efri tíðnisviðin, yfir 500 riðum, smátt og smátt veikari, sem nemur 5 dB við 2500 rið, með talsverðri lækkun upp úr því. Bassinn er einnig skorinn frekar bratt fyrir neðan 100 rið.

Hér má sjá enn eina gæðaútgáfuna, af Siglo Del Tango Argentino CD 04 – Juan D’Arienzo – (BVCP-8704) frá BMG Victor í Japan. Tíðnidreifingunni hér svipar mjög til TangoTunes útgáfunnar; hærri sviðin orlítið veikari, sem nemur á milli 2 og 2.5 dB upp frá 2300 riðum; bassinn er eilítið sterkari, sem nemur um 3 dB fyrir neðan 200 rið. Í þessari útgáfu er hátíðnin stölluð hiður upp af 4 kílóriðum.

Loks er útgáfa frá El Bandoneón – Blue Moon, Las Grandes Orquestas Del Tango / 40 Grandes Éxitos – Juan D’Arienzo CD 1 – Blue Moon (BMT 610. Þessi útgáfa er líkust CTA-útgáfunni, en með sterkari bassa og veikari hámiðju. Í þessari útgáfu eru hærri tíðnisviðin veikari en í hinum 5, frá því að vera 2 dB veikari við 1000 rið og sem mundar 5 dB við 4000 rið.Ef við ætluðum að ná sambærilegum hljómi og TangoTunes útgáfan þyrfti að hækka hámiðjuna smátt og smátt frá 600 riðum og létta bassann eilítið.

Comparing the different versions of Hotel Victoria one notices that they tend to be quite similar in scope. It is however noticable that many tend to make the higher frequencies a bit weaker than the reference copy, indicating that these would be a bit “duller” in the upper ranges. A slight strengthening from 2–4 kHz would make these copies more similar to the TangoTunes version.

4. Recuerdo með Orquesta Osvaldo Pugliese frá 1944

Þetta er lag frá miðjum fimmta áratugnum og dæmi um að nokkrar framfarir hafa orðið í upptökutækni. Þetta er einnig eitt af vinsælustu lögum Pugliese og því til í mörgum útgáfum. Til að byrja með berum við TangoTunes útgáfuna saman við Hotel Victoria með D'Arienzo frá 1935 til að sjá hvernig áferðin hefur breyst.

Það er áhugavert að bera útgáfu TangoTunes af Recuerdo frá 1944 við Hotel Victoria sem var tekið upp 9 árum fyrr. Það fyrsta sem er áberandi er að jafnvægið yfir tíðnisviðið er álíka gott. Það sem sker sig úr er að tíðnisviðið hefur breikkað; það eru meiri blæbrigði sjáanleg bæð á hærri og lægri tíðnisviðum. Árið 1935 nær nýtilegt svið upp í 4 kílórið; 1944 nær þetta allt upp í 7,5 kílórið, upp í diskantsviðið. Bassinn virðist einnig hafa styrkst eilítið; nú eru nýtileg atriði niður í um 40 rið, samanborið við 50 rið árið 1935.

Þetta er útgáfa af Colección – Osvaldo Pugliese – EMI CD 796624. Það er með ólíkindum hversu ólík þessi útgáfa er. Tónstyrkurinn er í miklu ójafnvægi samanborið við TangoTunes. Bassasviðið er mikið lægra, svo munar frá 4 niður í 12 dB fyrir neðan 150 rið. Tíðnibilið frá 1 til 5 kílóriðum er einnig verulega veikara, svo munar frá 4 niður í 9 dB. Síðan kemur einkennilegur toppur við 7 kílórið, eins og styrkurinn hafi verið sérstaklega aukinn þar.

Þetta er útgáfa af Grandes del Tango 02 – Osvaldo Pugliese CD 1 – Lantower 10015. Henni svipar til síðustu útgáfu, en þó lækka hærri tíðnisviðin hægar og toppurinn við 7 kílórið er ekki eins áberandi.

Þessi útgáfa er af Instrumentales Inolvidables – Osvaldo Pugliese – Reliquias (859023). Í þessari útgáfu virðast hærri tíðnisviðin hafa verið lækkuð verulega frá 1,7 kílóriðum. Það er einnig greinilegt að þessi útgáfa er hraðari en TangoTunes útgáfan; það sést á því tindarnir eru í hærri tíðni. Tíðnin fyrir ofan 10 kílórið er síðan skorin alveg en ekki stölluð niður.

Þetta er útgáfa af Los Clásicos Argentinos – Tango – Volumen 04 – Osvaldo Pugliese: bien milonga. Þessi útgáfa er í betra jafnvægi en flestar hinna fyrri. Þótt hljóðið lækki nokkuð við 2 kílórið helst styrkurinn nokkuð jafn eftir það, fram yfir tindinn við 7 kílórið, en þar eru efri tíðnisviðin skorin bratt. Það er áhugavert hvernig þessi útgáfa og þrjár ofangreindar bera með sér sömu gallana, en þó mímismiklum mæli. Það er líklegt að þær megi rekja til eldri yfirfærslu yfir á vínilplötu, mögulega EMI-útgáfunnar. Hinar útgáfurnar hafi verið yfirfærðar af plötunni og reynt á mismunandi hátt að lagfæra áberandi galla sem þar hafi komið fram.

Þessi útgáfa er hins vegar ólík hinum fyrry og líkari TangoTunes-útgáfunni. Hún er af Osvaldo Pugliese Vol. 1 (1943-1944) – (CTA-521), framleidd í Japan af Akihito Baba. Hér er tíðnidreifingin í mikið betra jafnvægi og flutningurinn á svipuðum hraða og hjá TangoTunes. Munurinn liggur í því að bassinn er eilítið sterkari í þessari útgáfu, á meðan hærri tíðnisviðin eru um 1,5 dB lægri upp að um 3,5 kílóriðum, þegar þau lækka hratt. Svo virðist sem Baba byrji að stalla sjálfvirkt niður við 3,5 kílórið, án tillits til þess aukinnar næmni í upptökum eftir 1940.

Með því að skoða ólíkar útgáfur Recuerdo má sjá þær forsendur sem eru að baki margra almennra útgáfna tangótónlistar. Á meðan sérhæfðar yfirfærslur frá TangoTunes og CTA gera sitt ýtrasta til að ná fram nákvæmri yfirfærslu, byggja almennu útgáfurnar á öðrum forsendum. Svo virðist sem þær eigi sér allar stoð í sömu yfirfærslunni, mögulega í segulbandsútgáfu sem nýtt hefur verið við að færa lagið yfir á vínil á sjötta eða sjöunda áratugnum. Ólíkar útgáfur hafa fengið aðgang að þessum master og reynt að endurhljóðblanda útgáfuna til að lagafæra áberanda galla á upphaflegu yfirfærslunni. Þessvegna eru í gangi ólíkar útgáfur sem rekja má til sömu gölluðu yfirfærslunnar. Ef tangósnúður neyðist til að nýta sér eina af þessum útgáfum þarf hann að reyna að nýta sér tónjöfnun til að ná fram betra jafnvægi. Betra væri þó að verða sér út um betri útgáfu.

4. Niðurstöður

Þegar ofangreindar niðurstöður eru skoðaðar má sjá vissa meginþræði í tengslum við jafnvægi og gæði mismunandi útgáfna af yfirfærslum tangótónlistar:

  1. Í gæðaútgáfum er á skipulegan hátt leiðrétt fyrir því hvernig bassinn og hægri tíðnisvið eru skorin á lakkplötum. Vegna þessa ættu tangósnúðar ekki að þurfa að leiðrétta þetta í flutningi.
  2. Tíðnisvið og jafnvægi fyrri upptakna, frá því fyrir 1931, er takmarkaðra en í þeim síðari. Þetta þýðir að bassinn og hámiðtíðnin eru veikar en í síðari útgáfum. Vegna þessa getur verið áheyrilegra að styrkja þessi svið varfærnislega í flutningi.
  3. Í mörgum tilvikum eru hærri og lægri tíðnisviðin ýmist of- eða vanstyrkt í eftirvinnslu. Þetta felur í sér að bassann og hámiðjuna þyrfti, eftir aðstæðum, annaðhvort að styrkja eða veikja eilítið til að ná fram betra jafnvægi. Þetta veltur á einkennum hverrar útgáfu fyrir sig.
  4. Það er algengt, jafnvel í nýlegum gæðaútgáfum, að stalla hærri tíðnisvið niður, trúlega til að draga úr suði. Fyrir vikið tapa þessar útgáfur blæbrigðum fyrir ofan 3500 rið. Það gæti þurft að vega á móti þessu í flutningi með því að styrkja hljóminn þar fyrir neðan.
  5. Yfirfærslur á vinsælum lögum hafa verið endurútgefin í mörgum ólíkum útgáfum þar sem ólíkum aðferðum við endurhljóðblöndun hefur verið beitt; niðurstðan er iðulega útgáfur sem eru í talsverðu ójafnvægi og gallaðar. Það getur verið erfitt að vega á móti þessum göllum. Þó má reyna að tónjafna varlega á móti þeim til að vega á móti mestu göllunum. Þegar þetta á við, er þó alltaf betra að verða sér út um útgáfu sem er hreinni og í betra jafnvægi, ef það er hægt.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Vefur þessi nýtir Akismet til að hafa hömlur á ruslpósti. Hér eru upplýsingar um slíka vinnslu athugasemda.

is_ISÍslenska
en_USEnglish is_ISÍslenska