2 – For-tangó: fyrir 1895

Tangó er sprottinn upp úr alþýðumenningu Suður-Ameríku, á svæðinu í kring um Rio del plata, Silfurfljótið, sem er heitið á flóanum á milli Argentínu og Úrúgvæ. Sitt hvoru megin við flóann eru Montevideo og Buenos Aires, borgir sem sættu gífurlegum breytingum og uppgangi á lokaáratugum 19. aldar — þær voru suðupottur ólíkra menningarstrauma. Sum áhrifin komu beint úr alþúðumenningu þeirra sem landið byggðu og þeirra sem þangað fluttu í stríðum straumum á þessum árum. Sum frá höfninni, þar sem sjómenn alls staðar að úr heiminum komu við. Það verður aldrei hægt að greina úr þeim þráðum sem urðu til þess sem við nú köllum tangó. Þó er hægt að geta sennilegra tilgátna um suma meginþræðina — út frá því hvaðan áhrifin komu og hvers eðlis þau voru.

Þjóðlegur grundvöllur

Í suðurhluta Suður-Ameríku myndaðist frá upphafi blönduð menning ólíkra hópa. Í þeirri menningu voru evrópsk, spænsk og kaþólsk áhrif ráðandi og samskipti við nýlenduherrana viðhéldu þessum áhrifum allt fram til upphafs nítjándu aldar. Menning frumbyggja, indíána, hafði þó án efa áhrif á mótun menningarinnar. Þótt þau áhrif séu ekki á yfirborðinu þá er ekki að efa að þessir þættir eiga sinn þátt í að skapa sérstöðu suður-amerískrar þjóðlagahefðar, og á þann hátt undirstöðu tangótónlistarinnar.

Candombe de carnevale, Pedro Figaro, 1933, Museo Nacionale De Bellas Artes Buenos Aires.

Svartir þrælar voru í umtalsverðum mæli fluttir til Suður-Ameríku á sautjándu og átjándu öld. Flestir þeirra voru úr ættbálkum bantúmanna frá suðvesturhluta Afríku. Þeirra örlög urðu þau, eins og Evrópumanna og frumbyggja, að renna saman við þá blöndu sem Argentísk menning var að verða, með nokkrum undantekningum þó. Í Buenos Aires og Montevideo, stóru hafnarborgunum við Silfurfljótið, héldu bantúmenn menningarlegri sérstöðu sinni fram yfir miðju nítjándu aldar. Sú sérstaða hvarf síðan, innlimuð í Argentíska menningu almennt, þegar leið að mótum nítjándu og tuttugustu aldar. Vegna þess að sérstaðan hélst svo lengi er hins vegar hægt að færa rök fyrir beinum áhrif bantúmenningar á þróun tangósins í upphafi. Orðið milonga á uppruna sinn í heiti samkoma svartra íbúa við Silfurfljótið á nítjándu öld. Einnig má telja, þótt það sé ekki eins óyggjandi, að orðið tangó megi einnig rekja til bantúmála. Viss dansafbrigði, sér í lagi í milongudansinum, eru einnig talin eiga uppruna sinn í sporum sem rekja má til dans bantúmanna.

Alþjóðleg áhrif í upphafi

La Paloma, Sebastian Iradier, um 1850, habanera, dansatriði: Ensemble Aquarelle, píanó: Shirin.

Það er ljóst að áhrif þeirrar tónlistar sem vinsæl var í Evrópu og í ríkjum Ameríku voru mikilvæg í þróun tangós. Þetta var tónlist sem barst þvert yfir Atlantshafið frá Evrópu til Norður og Suður-Ameríku og til baka. Þar ber helst að geta afbrigða vinsællar danstónlistar sem kallast Contradanza, sér í lagi afbrigða hennar sem bárust víða um heim frá Kúbu á seinni hluta nítjándu aldar. Þessi dans, sem nefndur var eftir Havana, höfuðborg Kúbu, var kallaður habanera. Áhrifa þessarar tónlistar gætir verulega í tangó í upphafi og habanerastef eru einnig yfirleitt spiluð sem undirtaktur í tangóum. Þessi áhrif eru sérlega áberandi í milongu, en grunntaktur hennar er í reynd hröð habanera. Habanera og skyld tónlist átti eftir að hafa gífurleg áhrif á alþýðutónlist bæði í Suður- og Norður-Ameríku, en grunntakturinn varð einnig undirstaða jazztónlistarinnar í Bandaríkjunum og í framhaldinu að bæði blús- og rokktónlist.

Suðupottur tangótónlistarinnar

Það var upp úr 1890 sem tangótónlist og dans varð að heilsteyptum stíl. Á undanliðnum áratugum höfðu mæst og blandast saman í Buenos Aires og Montevideo ólíkir menningarhópar. Fyrst er að telja criollo-menn, fólk úr nágrenni Silfurfljótsins sem átti ættir sínar að rekja til bæði Spánverja og frumbyggja, í bland við svarta afkomendur þræla. Inn í þennan hóp blönduðust áhrif bantúmanna frá Afríku, en menningarleg samstaða þeirra hélst fram yfir miðja nítjándu öld. Það sem síðan hreyfði við þessum suðupotti menningaráhrifa var hreyfingin í kring um hafnarborgirnar, þar sem fjöldi sjómanna alls staðar úr heiminum mættist og þar sem nýir íbúar í milljónatali, frá Ítalíu og öðrum löndum Evrópu, bættust við þá sem fyrir voru. Þessu fólki fylgdu nýir straumar, nýir dansar og ný hljóðfæraskipan, sem varð mikilvæg viðbót við þjóðlagahefðina úr sveitunum og taktvissa hefð svartra. Úr þessu varð til einkennandi og sérstök tangótónlist og viðeigandi dans undir lok nítjándu aldar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Vefur þessi nýtir Akismet til að hafa hömlur á ruslpósti. Hér eru upplýsingar um slíka vinnslu athugasemda.

is_ISÍslenska
en_USEnglish is_ISÍslenska