V.a – Tónjöfnun

Tónlist sem tekin er af lakkplötum er á einstöku tíðnisviði sem er ólíkt nútímatónlist í dreifingu. Mörg tæki sem henta vel fyrir popptónlist, til dæmis, henta ekki fyrir tangótónlist. Þetta á til dæmis við um hefðbundna tveggja eða þriggja rása tónjöfnun, þar sem hægt er að auka eða draga úr bassa, diskant eða miðsviði tólistarinnar. Tíðnisvið tangós er þrengra, þannig að stillingar þessara þriggja þátta eru ónákvæmar og skila litlu. Til þess að jafna tangótónlist er æskilegt að hagnýta nákvæmari tónjafnara þar sem hægt er að stilla afmörkuð tíðnisvið.

Grafískur tónjafnari

Hér er dæmi um notkun á grafískum tónjafnara við jöfnun á tangótónlist frá upphafi fjórða áratugarins. Hér er búið að efla bassann stigvaxandi upp í 5 dB hækkun frá 200 riðum niður í 50 ríð. Eftir það er lágbassinn stallaður ört niður. Miðtíðnin hefur verið efld lítillega frá 1 kílóriði og há-miðjan styrkt um tæp 3 dB. Frá 5 kHz er stallað hratt niður til að draga úr suði.

Þessi mynd sýnir nokkuð vel þau svið sem þarf að vinna með þegar unnið er með tangótónlist. Stundum, þegar það hefur ekki verið gert í framleiðslu, þarf að stalla niður báðumegin til að draga úr ómi og suði. Athugið þó að eftir 1940 þarf að gæta þess að lækka ekki niður of snemma; í tónlist Pugliese frá 1944 eru nýtanlegar upplýsingar allt upp í 7 kHz.

Stillibreytu-tónjafnari

Með stillibreytu-tónjafnara er hægt að afmarka ákveðin svið sem unnið er með og hækka þau eða lækka sérstaklega. Slíkir tónjafnarar eru stundum með grafísku viðmóti og sýna þannig hvernig tónkúrvan breytist. Hér fyrir ofan er viðmót í einum slíkum þar sem búið er að stilla kúrvuna á svipaðan hátt og í dæminu fyrir ofan. Hér er fyrsta breytan stillt á hraða stöllun, en hún stallar bassann hratt niður frá um 50 riðum. Breyta 2 hækkar bassannn stigvaxandi upp um 6 dB við 100 rið. Breyta 5 hækkar miðsviðið upp um tæp 4 dB við 2000 rið og breyta 6 er stallur sem tekur diskantinn hratt niður frá um 5000 riðum. Hér má sjá að mun færri atriði þarf að stilla hér til að ná nákvæmri jöfnun. Stillbreytutónjafnari er því þægilegri í notkun á milongu, þegar þörf getur verið á að tónjafna á milli einstakra laga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Vefur þessi nýtir Akismet til að hafa hömlur á ruslpósti. Hér eru upplýsingar um slíka vinnslu athugasemda.

is_ISÍslenska
en_USEnglish is_ISÍslenska