IV.b – Guardia nueva tónjöfnun

Eins og hefur komið fram áður, geta ástæður þess að gott er að tónjafna tangólög í flutningi verið margvíslegar. Stundum þarf að skerpa á hljómi Guardia nueva tónlistar. Stundum þarf að laga galla sem koma fram við slakar aðferðir við yfirfærslu og eftirvinnslu laganna. Í síðasta pistli voru forsendur tónjöfnunar greindar og nú er komið að því að skoða hvernig hægt er á hagnýtan hátt að tónjafna tónlistina, með dæmum um aðferðir og árangur. Hér verður stillibreytu-tónjafnari notaður, þótt vitaskuld má ná svipuðum árangri með grafískum tónjafnara.

1. Queja indiana með Canaro frá 1927, TangoTunes-útgáfan

Fyrsta dæmið sýnir hvernig mögulega er hægt að styrkja eitt af eldri lögunum, sem er frá þeim tíma sem bassinn og hámiðjan hljómaði of lágvær ís samanburði við miðsviðið. Mörgum þykir tónjöfnun á þessum nótum gera hljóminn veigameiri í bassanum og gera efri hljómana tærari.

Hér fyrir ofan má sjá kúrvuna sem nota má til að tónjafna TangoTunes útgáfuna, með nokkurri styrkingu á bassasviðin og meiri áherslu í hámiðjunni. Hér má einnig sjá að búið er að stalla djúpbassann og diskantinn niður til að draga úr suði og ómi.

Hér sjáum við áhrif ofangreindrar tónjöfnunar. Bassinn er aukinn um allt að 7 dB frá 200 riðum niður í 50 rið. Hámiðjan er hækkuð um allt að 8 dB frá 1 kílóriði með hápunkt við 3,5 kílórið.

Hér fyrir ofan eru tóndæmi, hið fyrra án jöfnunar og hið síðara með tónjöfnuninni. Ef vel er hlusta má heyra sterkari bassa og aukinn tærleika efst í tíðnisviðinu. Einnig hefur dregið úr suði með stöllun efri tíðnisviða.

2. Cantando með hljómsveit Carabellis frá 1931, í útgáfum TangoTunes TDJ TDJ.

Annað dæmið er lag Carabellis, Cantando, frá 1931. Til eru tvær afbragðsgóðar útgáfur af þessu lagi, frá TangoTunes og TDJ. Þegar þær eru bornar saman má sjá að tæknimenn hafa stuðst við ólík viðmið um hvernig best væri að tónjafna lagið.

Hér eru útgáfurnar tvær af Cantando frá 1931 eftir Carabelli bornar saman, TangoTunes (í grænu) og TDJ-AT (í bláu). Hér sést að munurinn liggur helst í því að TangoTunes styrkir bassann meira á meðan TDJ eykur styrk hámiðjunnar eilítið.

Nokkurnvegin svona þarf kúrvan að vera til að tónjafna TDJ útgáfuna þannig að hún nái sömu dýpt á bassasviðinu og sú frá TangoTunes. Búið er að styrkja bassann um 8 dB, mest við 110 rið. Hér má einnig sjá hvernig breyta nr. 3 hefur verið notið til að stýfa breytinguna af svo hækkunin fari ekki inn á miðsviðið.

Hér má sjá áhrif ofangreindrar jöfnunar á TDJ útgáfun af Cantando. Bassinn er styrktur þannig að lagið hljómar meir í líkingu við TangoTunes útgáfuna..

Hér má heyra TDJ-útgáfuna af Cantando, fyrst án jöfnunar og svo með auknum bassa. Áhrifin eru fínleg, en njóta sín helst í bassahljómi píanóleiksins.

Á þennan hátt mætti tónjafna TangoTunes útgáfu Cantando til að efla hámiðjuna í takt við TDJ-útgáfuna. Hér er búið að efla hámiðjuna um allt að 3.4 dB við 3.4 rið.

Hér má sjá hvernig ofangreind kúrva skerpir aðeins á hámiðjunni og bætir þannig örlítið við skærleika TangoTunes útgáfu Cantando.

Hér má heyra TangoTunes útgáfu Cantando, fyrst ójafnaða og svo með jöfnun. Sem fyrr er breytingin ekki mikil, en þó er hægt að heyra að hátíðnin er eilítið loftkenndari eftir jöfnun. Það að búið er að stalla hátíðnina niður hefur líka dregið úr suði.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Vefur þessi nýtir Akismet til að hafa hömlur á ruslpósti. Hér eru upplýsingar um slíka vinnslu athugasemda.

is_ISÍslenska
en_USEnglish is_ISÍslenska