V.e — Þjöppun

Þjöppun er eitt afbrigði hljóðstillinga sem oft er notuð þegar erfitt er að fá tónlistina til að hljóma nægilega nátt. Fyrir því geta legið ýmsar ástæður, til dæmis geta magnarar og hátalarar verið of kraftlitlir til að bera hærra hljóð, eða að aðstæður í nágrenninu krefjast þess að hljóðstyrk sé haldið niðri. Ein leið sem tangósnúðar hafa til að leysa slíkan vanda er með því að beita þjöppun.

Þjöppunarbúnaður virkar þannig að með honum er hægt að styrkjaheildarhljom tónlistarinnar án þess að auka hámarksstyrkinn. Þetta þýðir að hægt er að stilla tónlistina þannig að hún hljómi hærri. Þjapparinn bjagar tónsviðið með því að efla þá hluta sem eru lágværir en lækka hæstu hljóðin til samanburðar. Í almennri umræðu á vefnum á meðal tangósnúða er afstaða manna til þjöppunar tilefni rökræðna. Sumir telja að þjöppun eigi að nota almennt og telja hana mikilvægan hluta spilunarstíls síns og að hún skipti máli til þess að hljómurinn sé þéttari fyrir dansarans. Fyrir öðrum er þjöppun óbermi, vegna þess að aldrei sé hægt að réttlæta hvernig þjöppun bjagar tónsviðið og innra samhengi laganna. Sjálfur nýti ég þjöppun sjaldan, en kann að meta möguleikana þegar þær aðstæður koma upp að aðrar lausnir eru ekki til staðar fyrir þeim áhrifum sem ég vil ná fram.

Hér eru tvö dæmi um hvernig hægt er að stilla þjöppun fyrir sértækar aðstæður. Þessi dæmi byggja á tillögum kanadíska tangósnúðsins Igor «El Espejero» um hvernig hægt er að nýta þjöppun í milongu. Nánari upplýsingar um það eru á vefsíðu hans, HÉR.

Fyrra dæmið er það sem Igor «El Espejero» segist nota þegar líður að lokum mílongu, þegar hann er vanur að bæta í og þétta hljóminn. Hér þjappar hann efstu 6 dB umtalsvert, með þröskuld stilltan á -6 dB og þjöppunarhlutfall 4:1 fyrir ofan það. Þetta felur í sér að það byrjar að draga úr styrk við -6 dB og að sá samdráttur eykst upp í -4.5 dB (6 – 6/4). Þetta felur það ís sér að til þess að lögun fari ekki yfir 0 dB er hægt að auka styrkinn inn í þjapparann um 4.5 dB án þess að klippa efstu tónanna. Við þetta eykst styrkur lægri hljóða um allt að þrefalt.

Seinna dæmið er mikið hófstilltara, með þröskuld við -3 dB og þjöppunarhlutfall 2.5:1. Hér byrjar lækkun hljóðstyrks við -3 dB og lýkur við -1.8 dB (3 – 3/2,5). Með svona stillingu er hægt að auka hljóðstyrk inn í þjapparann um 1.8 dB án þess að klippa, og hækka styrk lægri hljóða um allt að 50%. Þetta er stillingin sem Igor «El Espejero» byrjar með í mílongum sínum. Mér sýnist að hann noti þetta sem öryggisstillingu: Ef maður er að keyra styrkinn upp í hámark þannig að styrkurinn á það á hættu að fara einstaka sinnum yfir 0 dB, þá getur lítilsháttar þjöppun eins og hér birtist dregið ur líkum á því að háu hljóðin klippi, með tilheyrandi bjögun. Vitaskuld er alltaf skynsamlegt að nota svonefndan «Limiter» til að koma í veg fyrir að tónlistin fari yfir 0 dB markið, en þjöppun eins og hér kemur fram getur mildað mörkin.

Hér eru tvö rit úr hávaðagreini (Loudness Analyzer) á spilun á hluta af lagi Pugliese in La yumba. Það til vinstri sýnir spilun án þjöppuna, það til hægri eftir þjöppun skv. fyrsta dæminu, með þröskuld við -6 dB og þjöppunarhlutfall 4:1. Það er augljóst að nú hljómar lagið mikið hærra í heildina.

Efra tóndæmið er hluti La yumba án þjöppunar, sbr. vinstra grafið hér fyrir ofan. Síðara dæmið er La yumba með þjöppun, sbr. hægra grafið. Hér má glöggt heyra breytinguna á hljóminum. Hann hljómar í heildina hærra og sterkar vegna þess að munurinn á styrk hárra og lágra hljóða er minni. Það er innra samspil lagsins sem breytist við þjöppun. Þetta er breyting sem getur átt rétt á sér við vissar aðstæður, þegar ekki er hægt að styrkja tónlistina á annan hátt þegar þörf er á.

Það er mikilvægt þegar þjöppun er notuð að framkvæma skipulegar prófanir á staðnum til að meta hvernig þetta hljómar fyrirfram, áður en milongan hefst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Vefur þessi nýtir Akismet til að hafa hömlur á ruslpósti. Hér eru upplýsingar um slíka vinnslu athugasemda.

is_ISÍslenska
en_USEnglish is_ISÍslenska